Articles

Articles

Articles

Hugarró viðskiptavina er leiðarljósið hjá vöruhúsateymi Miracle

April 4, 2024


Benjamín Sigursteinsson, einn af leiðtogum vöruhúsateymis Miracle.

Þekkingarfyrirtækið Miracle státar af öflugu teymi óháðra sérfræðinga í hagnýtingu, greiningu og framsetningu gagna. Teymið telur tæplega þrjátíu manneskjur og hefur byggt upp vöruhús gagna á öllum helstu viðskiptakerfum á markaði fyrir mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins og það í afar fjölbreyttri starfsemi, til dæmis smásölu, heildsölu og fjármálastarfsemi. Nú er sömuleiðis hugað að þróun lausna fyrir vöruhús gagna sem munu samtvinnast hinni nýju lausnasvítu Miracle: Serenity. Einn af leiðtogum vöruhúsateymisins hjá Miracle er Benjamín Sigursteinsson og hann er viðmælandi okkar að þessu sinni. Benjamín á að baki 35 ára feril í faginu og hefur meðal annars starfað í Angóla, Egyptalandi, Króatíu, Ítalíu og Katar.

Vöruhús gagna?

Vöruhús gagna (data warehouses) innihalda gjarnan gögn úr mörgum mismunandi gagnasöfnum og upplýsingakerfum sem hefur verið safnað úr dreifðri högun á einn miðlægan stað til skýrslugerðar, greiningar, vinnslu og yfirsýnar. Með viðskiptagreiningu (business intelligence) má svo veita aðgengilega sýn á gögn úr mörgum mismunandi kerfum í einu vöruhúsi; gögn úr kerfum sem stundum hafa mjög takmarkaðar innbyrðis tengingar og vensl. Gagnavinnsla í vöruhúsum veldur ekki álagi á grunnkerfi og hún er einfaldari og fljótlegri en þegar gögnin eru unnin í dreifðri högun í mörgum mismunandi kerfum. Tímasparnaður í auðlindum er því ótvíræður. Verðmæt yfirsýn á gögn skapast í vöruhúsum gagna og gæðin aukast, til dæmis við það að misræmi í gögnum verður sýnilegt.

Óháðir sérfræðingar Miracle

Einn af leiðtogum vöruhúsateymisins hjá Miracle er Benjamín Sigursteinsson, en hann hefur fengist við vöruhús gagna og viðskiptagreiningu allt frá árinu 1997 þegar að hann starfaði hjá Teymi – Oracle á Íslandi, og var þá að vinna í Oracle Express fyrir Ísaga. „Við hjá Miracle getum unnið meira og minna með allar tegundir vöruhúsa og sömu sögu er að segja um flest tól á sviði viðskiptagreiningar. Við leggjum þunga áherslu á að vera óháðir tólum og mismunandi þróunar- og söluaðilum þeirra eða birgjum, en við viljum auðvitað allra helst gera það sem er best og hagkvæmast hverju sinni fyrir viðskiptavini okkar.“

Miðlæg hönnun í aðalhlutverki

„Við höfum meðal annars byggt upp miðlæg vöruhús gagna fyrir stórar smásölukeðjur, íslenskar jafnt sem erlendar, með starfsemi hér heima og víða erlendis, sem keyra alls konar kerfi fyrir fjárhag, birgðir og sölu ásamt greiningartólum í staðbundinni hýsingu eða skýjaþjónustu á borð við Azure. Lykiltölur eru þarna meðal mikilvægustu gagna og gera starfsfólki og stjórnendum kleift að öðlast nákvæma yfirsýn á flókinn rekstur og starfsemi, ýmist á svipstundu eða tafarlítið á nokkrum mínútum og upp í daglega. Oft er á sama tíma verið að auðga gögn með ytri gögnum, til dæmis gengi gjaldeyris.“

Frá Seðlabankanum til Sameinuðu þjóðanna

Benjamín kláraði BS-gráðu í tölvunarfræði við Háskóla Íslands árið 1989. „Ég fór fljótlega að vinna hjá Seðlabankanum, en var alltaf með annan fótinn í upplýsingavinnslu og gagnagreiningu. Fór síðan til Sameinuðu þjóðanna árið 1992 og var þar í tæplega fjögur ári við forritun, innleiðingu kerfa og fleira. Á þeim tíma var ég til dæmis í Angóla um hríð sem stjórnandi tölvudeildar SÞ. Það var ógleymanleg reynsla. Á tíma mínum hjá Sameinuðu þjóðunum tók ég einnig að mér verkefni í Egyptalandi og Króatíu.“

60 þúsunúd línur í Cobol og Fortran

Eftir heimkomuna fór Benjamín til Teymis og var þar í þrjú ár áður en hann skaust aftur út um tveggja ára skeið og starfaði þá hjá Matvælahjálp Sameinuðu þjóðanna í Róm undir aldamótin. „Ég byrjaði í OLAP hjá Teymi. Var svo Business Analyst hjá SÞ, sem er það allra leiðinlegasta sem ég hef fengist við í vinnu! Róm var samt fín. Þar vann ég til dæmis með fyrstu útgáfuna af SAP Business Warehouse… og best að hafa sem fæst orð um þá lausn. Eftir heimkomuna var ég hjá Oz í tvo ár þar til ég færði mig aftur yfir til Teymis og þaðan yfir til Miracle þegar að við stofnuðum það ágæta fyrirtæki árið 2003 og þar uni ég mér ósköp vel.“

„Ég hef í raun lítið gert annað en verið í vöruhúsalausnum á Íslandi, að undanskildum tímanum hjá Seðlabankanum þar sem ég lagði að baki 60 þúsund línur í Cobol og Fortran í aðdraganda Spariskírteina ríkissjóðs og fleiri verkefna. Einnig var ég fyrst og fremst DBA hjá Oz.“

Áreiðanleiki upplýsingar mikilvægur

Fyrir ýmis fyrirtæki í smásölu og þjónustu felast verkefni Miracle einkum í því að ferja gögn með farsælum hætti af gagnagrunnum í staðbundinni hýsingu yfir í skýjaþjónustu. Nokkur sveitarfélög hafa sömuleiðis samið við fyrirtækið um þróun vöruhúsa fyrir hagdeildir. Ýmist er verið að byggja upp vöruhús frá grunni eða unnið að eðlilegum og stöðugum endurbótum til langtíma.

„Það liggur alveg ljóst fyrir að áreiðanleiki upplýsinga er einn af lykilþáttum í því að tryggja almenna útbreiðslu og notkun lausna í viðskiptagreiningu innan vinnustaða. Bæði starfsfólk og stjórnendur eru blessunarlega í auknum mæli meðvituð um gæði gagna og þetta góða fólk þarf að geta treyst því að þau séu nákvæm, rétt og berist tímanlega. Viðskiptagreining snýst þannig framar mörgu öðru um að byggja upp skiljanlegar og þægilegar skýrslur og mælaborð í samráði við starfsfólk og stjórnendur,“ segir Benjamín.

Hagstofan í Katar

„Viðskiptavinir Miracle eru af öllum stærðum og gerðum og oft fjölþjóðlegir. Í því samhengi langar mig til að minnast á afskaplega skemmtilegt verkefni sem við hjá Miracle unnum með Hagstofunni í Katar. Það tók um fjögur ár og snerist fyrst og fremst um framsetningu og upplýsingagjöf um mannauð, framvindu mannfjölda og húsnæðiskosti í landinu. Við hjá Miracle vorum hluti af stærra teymi í upphafi, en sáum með tímanum alfarið um verkefnið á eigin spýtur.“

Miracle Serenity spennandi lausn

Benjamín nefnir að endingu að eitt af verkefnum hans hjá Miracle í augnablikinu sé að koma að þróun vöruhúsalausnar fyrir Miracle Serenity-svítuna, sem er nýr lausnavöndull fyrirtækisins fyrir vöktun, keyrslur og fleira.

„Þar langar okkur til að geta boðið upp á tiltekið rekstrarumhverfi í áskrift fyrir lausnir, sem eru hvort heldur hýstar með staðbundnum hætti, sem stundum er kallað on-prem, eða staðsettar í skýi. Við erum að nota Serenity nú þegar í rekstrareftirliti með netkerfum og hugbúnaði hjá stórri smásölukeðju þar sem að Serenity fylgist með keyrslum, sendir niðurstöður inn á vaktborðið okkar og lætur vita ef eitthvað bjátar á. Við erum að vinna að þróun aðgengilegs viðmóts þarna til að ræsa keyrslur, einkum í staðbundnu on-prem-hýsingarumhverfi, sem er mjög spennandi viðfangsefni og ákaflega gagnleg lausn fyrir bæði viðskiptavini og okkur hjá Miracle. Það var ekki að ástæðulausu að við völdum nafnið “Serenity” á svítuna, því að hugarró viðskiptavina og er okkur auðvitað alltaf ofarlega í huga. Hún er leiðarljósið!“ segir Benjamín hlæjandi.

Skoðaðu bloggið

Greinar frá okkur um mismunandi viðfangsefni og verkefni

Viltu vita meira?

Endilega hafðu samband við okkur með tölvupósti

Viltu vita meira?

Endilega hafðu samband við okkur með tölvupósti

Viltu vita meira?

Endilega hafðu samband við okkur með tölvupósti

Skoðaðu bloggið

Greinar frá okkur um mismunandi viðfangsefni og verkefni

Skoðaðu bloggið

Greinar frá okkur um mismunandi viðfangsefni og verkefni