APRÓ þróar gervigreindarlausn fyrir Grímsnes og Grafningshrepp

Grímsnes- og Grafningshreppur tekur þátt í þróunarverkefni með APRÓ um innleiðingu sérsniðinnar gervigreindarlausnar til að efla skilvirkni og bæta þjónustu við íbúa.

Fréttir

10/22/25

Samhliða verkefninu vinnur sveitarfélagið jafnframt að mótun stefnu um notkun gervigreindar og upplýsingaöryggi fyrir sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshrepp.

Fullt eignarhald og öryggi
Lykilþáttur í verkefninu er að lausnin er hýst í öruggu umhverfi þar sem sveitarfélagið heldur fullu eignarhaldi á gögnum sínum. Starfsfólk fær einnig fræðslu og leiðbeiningar um ábyrga og markvissa notkun gervigreindar.


Fagna samstarfinu

„Ég fagna mjög þessu samstarfi og tel mikilvægt að sveitarfélögin setji sér stefnu um notkun gervigreindarinnar um leið og þau skapi starfsfólki góð skilyrði til að vinna með gervigreindina í öruggu umhverfi – því hún er komin til að vera,“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps.

Hjálp við að ná markmiðum

„Við hjá APRÓ erum virkilega spennt fyrir þessu samstarfi og höfum trú á því að APRÓ Liðsaukinn geti skapað mikið virði á stuttum tíma. Við erum ekki síður stolt af nálguninni en þar eiga sveitarfélögin sem koma inn í lausnina afurðirnar sjálf. Auk þess er fyllsta öryggis gætt í bæði þróun og innleiðingu Liðsaukans. Okkar hlutverk er einfaldlega að hjálpa notendum að ná markmiðum sínum á skilvirkan og öruggan hátt.” segir Páll Jónsson framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar hjá APRÓ.

Nýtt upphaf

Á þróunartímabilinu verða kortlagðir helstu verkferlar þar sem gervigreind getur stutt við starfsemi sveitarfélagsins, byggt upp innra þekkingarsafn og haldin fræðslunámskeið fyrir starfsfólk. Að lokum verður gerð samantekt með mælingum og tillögum um framhaldið.

Með þessum skrefum markar Grímsnes- og Grafningshreppur upphaf að nýrri tækniþróun í þjónustu við íbúa – með áherslu á öryggi, ábyrgð og nýsköpun.